August 22, 2006

Skrítin verðlagning

Mikið skil ég ekki verðlagningu á þjónustu fyrir börn.

Ég var í DK fyrir stuttu og við fórum í Fields(verslunarmiðstöð á Amager). Á efstu hæð er leiksvæði fyrir börn. Klukkutíminn kostar 25DKR fyrir börnin. Þetta er snilldarstaður, þar sem hægt er að láta börnin leika sér á meðan fullorðnir geta fengið sér öl, mat og aðra hressingu. Við Elsa sem sagt fórum með Ara þarna og ég náði í tvo öllara og var þetta hin mesta skemmtun. Þetta var reyndar smá puð fyrir okkur, því við þurftum að elta Ara Þröst í smá ævintýrahúsi(mjög flott hús, með rennibrautum, boltum, keilum og mörgu öðru sniðugu fyrir börn). En þegar kom að brottför, var stráknum mútað með ís og við meira en tilbúin að greiða aðeins 25DKR fyrir svona mikla skemmtun sem Ari fékk á þessum klukkutíma. En nei nei, vinsamlegast greiðið 125 DKR fyrir þetta. Þá þurftum við sem sagt að greiða fyrir veru okkar líka, 50DKR á kjaft. Af hverju að greiða fyrir okkur? Við gerðum ekkert nema að horfa á strákinn leika sér. Ég hefði alveg getað verið án svitans sem ég uppskar í eltingarleiknum við strákinn. En þessi pæling á sér undanfara.....

... á Íslandi er staður sem rukkar á svipaðan hátt. Þessi staður er hinn vinsæli og frábæri Fjölskyldu- og húsdýragarður. Þar fá börnin frítt inn og foreldrarnir borga. En hvað er ég svo að pæla? Jú, ég er ekki að fara í húsdýragarðinn fyrir mig, ég er ekki að fara á leiksvæði fyrir mig, þetta er allt fyrir Ara Þröst. Því skyldi ég þurfa að borga fyrir mig en ekki hann. Mér liði mikið betur með að borga eitt og hálft verð fyrir Ara Þröst og ég fengi frítt. Sama kerfi mætti leiksvæðið á Fields koma sér upp.
Gaman væri að heyra ykkar skoðun

Arnar
p.s. Bridge-landsliðið er í 4.sæti í evrópumótinu sem er í Póllandi ;-)

August 13, 2006

6 days in paradise

Í Danmörku eyddum við 6 dögum hjá Kristínu og Kára í Álaborg og 4 dögum í Köben. Í stuttu máli, hefðum við frekar átt að eyða enn meiri tíma hjá Kristínu og Kára, því það var rosalegt fjör og allir skemmtu sér vel þar. Ari lék sér mikið við Christófer og Victor Kára. Victor og Ari áttu reyndar aðeins betur saman. Það voru því mikil vonbrigði þegar komið var til Köben og engir strákar til að leika við. Við Elsa skemmtum okkur svo líka vel hjá þeim Kára og Kristínu, þar sem við spiluðum Catan og Buzz eins oft og við gátum. Skemmtilegt að segja frá því að 3 sigrar bættust í sigrasafnið mitt.... Kári og Kristín eru verðugir spilarar og synd að þau skuli vera búsett í DK, við eigum mikið sameiginlegt(spilum Buzz og Catan!!!). Þau kynntu okkur svo fyrir Borgum og Riddurum, sem er algjör snilldarviðbót við fjögurra manna upprunalegu útgáfuna. Nú viljum við bara spila Borgir og Riddara. Þeir sem gefa sig fram í spil vita númerið hjá okkur Elsu. Kári og Kristín voru sannarlega höfðingjar heim að sækja, elduðu og stjönuðu við okkur eins og við værum hefðafólk. Húsnæðið hjá þeim er einkar glæsilegt, enda leigja þau hjá bæjarstjóranum, sem síðan býr í næstu íbúð.

Best að hafa þetta ekki lengra í bili.

August 09, 2006

Engar ritgerðir takk....

Það er alveg verið að refsa manni fyrir að skrifa of langan texta, ég þurfti að skipta "ritgerðinni" í þrjá hluta.
En ég varð bara að segja þessa sögu.

Ævintýrin með ferjuna - partur 3

Jæja, 15.59 og 3km að ferjunni. Og loksins 16.01 kominn að ferjunni, nema að við þurftum að fara í gegnum borgunarhliðið. Þar sáum við að ferjan var ennþá við bryggju. Við sáum strák hlaupa inn í borgunarskýlið og teygði sig út úr skýlinu og veifaði okkur að koma að því. Svo í æsingi bað hann okkur um bókunarnúmerið, svo fór hann í símann og talaði einhverja dönsku sem ég skildi ekki, eina sem ég skildi á látbragði hans var að hann var að athuga hvort við næðum að komast um borð. Í leiðinni vorum við að borga og hann að baða út höndum um kortið okkar. Svo lagði hann á, lét okkur fá kvittun og sagði á dönsku "flýtið ykkur, flýtið ykkur". Þá tók annar maður við okkur sem baðaði líka út höndunum og var að leiða okkur að skipinu og inn í það. Við vorum svo stressuð og mikið adrenalín í gangi að maður var með bílinn út um allt, tilbúinn á bensíninu og kúplingunni. Svo um leið og við komum inn í bátinn, þá meina ég um leið, lagði skipið af stað. Ef við hefðum komið 50 sek seinna, hefðum við misst af skipinu, þetta var rosalegt. Mæli sem sagt með að fólk gefi sér alltaf meiri tíma en það heldur og jafnvel enn meiri tíma en það.
Meira um DK ferðina seinna

Ævintýrin með ferjuna - partur 2

Þegar við vorum komin aftur á hraðbrautina og ég sá fyrsta skilti að SO, þá vorum við komin í djúpan skít. Ég varð því að gefa vel í, 160km/klst var ekki óvanaleg tala í mælaborðinu. Þegar ég hélt að við værum búin að ná upp töpuðum tíma og ættum að ná ferjunni svona milli 5-1omín í brottför, komum við að einnar akreinar vegi og þar var hámarkshraði ekki mikið meira en 80 km/klst og svoldil umferð. Ég sá klukkuna smella æ nær 16.00 og var alltaf að reikna út miðað við hvaða hraða ég var á og hvað var langt eftir. Í nokkuð langan tíma, þá sáum við engin skilti með SO. Svo loks sá ég eitt og þá voru 17km eftir og klukkan 15.49. Því mundi ekki duga að keyra á 80km/klst til að ná ferjunni. Nú tók við æsilegasti kafli ferðarinnar, keyrt framúr hverjum bílnum á fætur öðrum, keyrt hratt í gegnum litla bæi. Þetta er hlutur sem ég mun aldrei aftur gera, sérstaklega þar sem Ari Þröstur sat aftur í. Hjartað á mér var á fullu allan tímann, ég ákvað samt að láta ekki á því bera og reyndi að vera rólegur, sérstaklega þar sem Elsa var líka róleg. 7 km síðar þá var klukkan orðinn 15.57. Við vorum þá aðeins farin að opna okkur, ég gat ekki lengur verið rólegur á yfirborðinu og Elsa greinilega ekki heldur, við vorum orðin mjög stressuð því ef við misstum af ferjunni þá þyrftum við að bíða í 3 tíma og myndum ekki koma til Álaborgar fyrr en á miðnætti og það yrði rosalega vont fyrir Ara Þröst, sérstaklega í nýju umhverfi.

Ævintýrin með ferjuna - partur 1

Við vorum varla lent á Kastrup að við vorum komin í "drífa okkur" gírinn. Málið var nefnilega þannig að við ætluðum beint til Álaborgar með ferju í gegnum Árósa. Við pöntuðum með 16.00 ferjunni frá Sjællands Odden, sem er á norð-vestur sjálandi. Við lentum á Kastrup 13.15. Þeir á Kastrup voru eitthvað óákveðnir hvert þeir ætluðu að setja farangurinn okkar, því Íslendingar áttu að sækja farangurinn á bandi nr. 1, svo nr. 4 og loks á bandi nr. 8, sem er reyndar fyrir stóran farangur(þar var kerran hans Ara Þrastar). Við ákváðum áður en við lögðum af stað til DK að fá okkur bílaleigubíl(sáum sko ekki eftir því). Eftir að hafa sótt bílaleigubílinn, áttuðum við okkur á því að við höfðum 1 klst og 20 mín til að komast að ferjunni. Okkur var sagt að það tæki um 1 klst og 30 mín miðað við um 100km/klst, s.s. tæp á að ná ferjunni.
Frá fyrsta skilti að Sjællands Odden(sem ég kalla nú SO), reiknaði ég út hvað ég yrði lengi og hvað ég kæmist marga km á mín. Eftir 20 km sá ég að með 120km/klst ætti ég að ná að vera kominn 15 mín fyrir brottför. Ég ákvað samt að þyngja bensínfótinn aðeins til að eiga meiri tíma inni ef eitthvað kæmi uppá(t.d. skipta á Ara). Jæja allt í góðu og ég reiknaði sífellt að við ættum að komast á góðum tíma. Þegar um 80 km voru eftir og við búin að keyra hraðbrautina í um 40 mín, þurftum við að fara hjáleið. Við héldum að þetta væri týpísk íslensk hjáleið, bara stutt. Nei nei, í um 25 mín vorum við að keyra á um 80km/klst.

August 05, 2006

Sumarfrí innanlands

I´m on fire....

Þegar við hjónin ákváðum sumarfríið okkar, var það náttúrulega skipulagt í kringum fríið hjá dagmömmunni. Það er sem sagt frá 17.júlí - 8.ágúst, Elsa er reyndar viku lengur. Svo tekur við aðlögun hjá leikskólanum. Elsa byrjar fyrstu tvo dagana og svo tek ég við ef þess þarf. Mig hefur langað frá því Ari fór til dagmömmu að vera fluga á vegg, eða lauma inn cameru, til að sjá hvernig Ari er að leika sér og hvernig hann leikur sér við önnur börn. En maður getur víst ekki verið á öllum stöðum í einu.

Til að byrja með ætluðum við að ferðast innanlands og elta sólina. En eins og júní var og júlí byrjaði, ákváðum við að panta ferð til DK og heimsækja vini okkar Kristínu og Kára, en þau búa í Ál(a)borg. Við bókuðum 10 daga ferð og fórum við til þeirra 24.júlí. Vikuna áður skelltum við okkur í smá tjaldferð til Húsafells, sem reyndar var aðeins ein nótt. Við hins vegar renndum yfir Reykjanesið, sem er algjör perla og fáir sem fatta að það er stutt í svaka flotta náttúruperlu við Reykjanesvita. Við vorum mjög heppin með veður þessa viku, hiti milli 15-20 gráður og sól.

En svo kom DK ferðin.....

IT/2, hjól, pool, golf

Það hefur mikið gerst undanfarnar vikur. Of langt mál að rekja það sérstaklega, ætla að stikla á stóru í næstu bloggum mínum.

Í vinnunni hef ég tekið að mér verkefnastjórn í innleiðingu á upplýsingatæknikerfinu IT/2. Það er áhættu- og fjárstýringarkerfi fyrir sparisjóðina. Þetta þýðir um 60-80% aukning við það sem ég var áður að gera. Ég hét því reyndar þegar ég var að skoða mig um í leit að nýju starfi að ég skyldi ekki vinna meira en 8 tíma á dag. En þar sem þetta er svo skemmtilegt verkefni þá langar mig mikið til að eyða meiri tíma í vinnunni til að takast á við þetta.

Ég skráði mig í golfklúbb setbergs fyrir sumarið og verð að segja að ég hef ekki verið duglegur að mæta að golfast, það bara hefur ekki verið tími né veður(reyndar engin afsökun með veðrið). Ég meira að segja hef lækkað í forgjöf :-(

Annars hef ég aukið þekkingu mína í pool-i, það var nefnilega sett upp aðstaða í vinnunni þar sem starfsfólk getur spilað pool, fótboltaspil og pílu. Einnig er breiðtjald, dvd og fullt af stöðvum. Það er svo með sanni hægt að segja að þetta hafi aukið gæði vinnustaðarins til muna....

Við hjónin keyptum okkur hjól í vor. Strax byrjaði ég að hjóla í vinnuna og hafði mikið gaman af. Við keyptum að sjálfsögðu stól fyrir Ara Þröst og fórum í hjólatúra með honum. Það er þvílík unun að fara með honum, því þetta er eitt af því skemmtilegasta sem hann gerir, hann reyndar endist ekki lengi. Svo ætlaði ég að hjóla í vinnuna eins oft og ég gæti, en veðrið hefur sett strik í reikninginn og hjólin verið vanrækt. Úr því á að bæta núna.

Jæja læt þetta nægja í bili,

p.s. ég ætla að blogga í nokkrum pörtum það sem ég hef verið latur við að blogga.