February 21, 2006

Til hamingju Ísland...

Um helgina fór ég í bústaða ferð með félögum úr Tradition, þetta eru Þorbjörn, Björn, Grétar og Tóti.
Það var mikið stuð og mikið gaman, við spiluðum BUZZ sem er algjör snilldar leikur, Þorbjörn eldaði roastbeef ofan í mannskapinn og að venju...... skot og mark!(til hamingju með barnið meðan ég man....)
Við horfðum spenntir á úrslitin í Evrósvisjón og kom okkur ekkert á óvart að Silvía vann, spurningin er bara hvort að hún nái að rugla í evrópubúum eins og hún hefur ruglað í okkur og á endanum fengið 70% á sitt band....

Vikan er búin að vera erfið, Elsa er núna búin að vera veik í 11 daga(með 40 stiga hita á hverjum degi). Að öllum líkindum er um inflúensu að ræða og getur tekið allt að 10 dögum. Ari Þröstur losnaði við gifsið á hádegi á föstudaginn. Við tókum daginn í frí eftir það og glöddum Elsu þegar heim var komið með "láttu þér batna" blómum.... það tókst samt ekki :-(

Ég stefndi að því að fjalla aðeins um mál múslima og teiknimyndanna og vangaveltur um stríð. Þetta var vegna þess að mér fannst allt ólgandi í ósætti og múslimar að nýta sér þetta mál til að koma af stað múgæsingi meðal múslima gagnvart vesturlöndum. Svo eru það vesturlönd sem kunna ekkert betur en að gera grín að hvort öðru og sjálfu sér, sem ýtir undir hatrið hjá múslimum. Mig langaði bara að kanna hjá gestum síðunnar hvort menn teldu hættu á því ef ráðist yrði á t.d. Danmörk í formi hryðjuverka, hvort hin norðurlöndin myndu standa saman í baráttu gegn þeim löndum sem að því standa.

Annars er nú eitt mál sem var sláandi um helgina er þátturinn Kompás, ég hef aldrei horft á hann, en síðasti þáttur var svakalegur. Þar beittu þeir tálbeitu til að koma á fundi 13 ára stúlku(sjálfsagt verið eldri stúlka sem lék tálbeituna) og karlmönnum sem höfðu áhuga á að kynnast henni betur, sjálfsagt með kynlíf í huga. Þeir sýndu fund um 5-8 manna en blurruðu þá til að þeir þekktust ekki. Það sem manni finnst svakalegast við þetta er hversu margir virðast vera áhugasamir um þetta. Hvað fær menn til að leita í svona ungar stúlkur. Ég bara spyr. Það er líka áhyggjuefni að vita hvort þetta viðgangist hér á landi, þ.e. að ungar stúlkur séu að prufa sig svona áfram á netinu og fari svo og hitti eldri karlmenn(sem eru allt að 60-70 ára gamlir, manni blöskrar gjörsamlega).

February 06, 2006

Ákafi í boltanum

Þá er enn ein helgin liðin og ég tóri!!!!

Á föstudaginn horfðum við skötuhjúin á Idol og vorum hrifin af hippaþemanu, ég varð næstum fyrir vonbrigðum því mér fannst ekki vera hægt að hafa svona þátt án þess að Janis Joplin fengi smá heiðrun. Sem betur fer tók Ína(held ég) lag með henni sem heitir More over.
Á laugardaginn var lítið gert, skrapp til Teits félaga um kvöldið og við fórum yfir nokkrar pælingar. Sunnudagurinn fór í geymslutiltekt(það tekur ekki langan tíma, þar sem geymslan er ekki mikið meira en svona 4 fm. Ég hendi svo gamla golfpokanum og færði kylfurnar og aukadótið í nýja ammlis golfpokann(takk Hákon, Dóri, Elli og Kári).
Um kvöldið fór ég í fótbolta og fyrirfram staðráðinn í að gefa mig 100% í leikinn. Liðin skiptust þannig að ég, Steini, Óli og Andri öttum kappi við Magga, Hákon, Ómar og Stefán. Fyrirfram mætti telja að mitt lið hafi verið svona "underdogs" og með mínu hugarfari þá jókst það svo um munaði. Mikið kapp færðist í leik minn og þegar tímanum hafði lokið var búið að öskra mjög mikið og mikið um miklar varnir. Leikar enduðu þannig að við töpuðum einum leik og hætta varð seinni leiknum þar sem tíminn var búinn(við þá undir 2 mörkum eða 3). Það jákvæða við þetta var að allir gátu farið heim sáttir eftir að hafa pústað í lok tímans.

Kannski kemur pæling frá mér fljótlega vegna hugsanlegs stríðs milli kristinna og múslima. Þið fáið því smá tíma til að pæla í ykkar skoðun þar til ég set fram mínar pælingar.

February 01, 2006

Ari Þröstur í gifsi

Hélduð þið að ég hefði gefist upp á blogginu???? Góð ágiskun, en ég ætla ekki að gefast upp.

Ég gerði reyndar heiðarlega tilraun um daginn að setja ferðasögu okkar Elsu til London, en hún var svo löng að kerfið hafnaði henni(því mun ég stikla á stóru hér). Við fórum á fimmtudaginn 12.jan og komum aftur aðfaranótt þriðjudagsins 17.jan. Þetta var afslöppunarferð, verslunarferð og skoðunarferð. Við sáum Lion King sýninguna og borðuðum á tveimur mjög góðum veitingastöðum, Asia de cuba(sem við ákváðum áður en við fórum til London, vegna góðra meðmæla og fær staðurinn 5 stjörnur af 5) og svo ítalski pizzastaðurinn Spacca Napoli(sem við fórum óvart á og fær hann 5 stjörnur af 5).

Þegar heim var komið hófst ég handa við að prufa allar græjurnar sem ég fékk í ammlisgjöf og sem ég keypti úti(handfrjálsan búnað, dvd diska, playstation leikir o.m.fl.). Við Elsa keyptum þrjá leiki úti, Need for speed 2, Fifa og Buzz. Síðastnefnda leikinn höfum við Elsa spilað nokkuð og er hann frábær. Valið stóð á milli Buzz og singstar og er Buzz alveg ótvíræður sigurvegari að okkar mati, þrátt fyrir að hafa ekki prufað singstar. Nú er nýr Buzz á leiðinni, kemur í apríl.

Vinnan gengur ágætlega fyrir sig, ég er að koma mér fyrir og lesa mig til um Flexcube. Þetta kerfi er samkeppniskerfi við SAP, á Íslandi er í raun enginn sem kann almennilega á Flexcube, það er bara svona almenn þekking hjá nokkrum. En mitt hlutverk er að kunna almennilega á kerfið til að finna út hvort að það séu einhverjir möguleikar á að nýta það frekar.

Ari Þröstur er búinn að vera svoldið oft veikur. Frá því á mánudag hefur hann farið tvisvar til dagmömmu og ældi slími á mánudaginn 23.jan og svo aftur alvöru gubbi 25.jan. Eftir helgina sáum við að grunur Elsu um eyrnabólgu var á rökum reistur og við pöntuðum tíma hjá barnalækni til að hefja pensilínmeðferð. Hjá lækninum kom engin ummerki um eyrnabólgu og hann fann enga ástæðu fyrir veikindunum. Hins vegar spurði hann okkur af hverju Ari vildi ekki labba. Eftir smá skoðun sendi hann okkur í rannsókn á bráðmóttöku barna til að ath með sýkingu í beini(ferðin var heldur betur búinn að snúast frá grun um eyrnabólgu í skoðun á mjöðminni). Ekkert kom úr rannsóknum og við send heim(þetta var á mánudaginn 30.jan). Svo daginn eftir var hann enn ófáanlegur til að labba og við búinn að greina að áverkinn var í ökla þannig að það var aftur farið á bráðamóttöku. Nú kom brot í beini í ljós(eins lítið brot og hugsast getur) og engin sýking. Ari Þröstur er því núna í gifsi og getur ekkert hreyft sig greyið.

Áfram Ísland!!!!
Ísland vann rússamaskínuna í gallabuxunum(þjálfarinn er víst alltaf í gallabuxum) í gær. Algjör snilld, ég hlustaði á lýsinguna upp á spítala í gegnum símann og það var gaman að geta fylgst með völtun Íslands yfir björninum.
Nú er bara að vona að Ísland vinni Normenn og komist þannig áfram í undanúrslit. Ég hugsa að við töpum á móti Króötum 30-31.

Jæja þetta er gott í bili.